Monday, November 16, 2009

hressssst

Já þegar maður á að vera að skrifa ritgerð þá vill maður helst gera eitthvað allt annað. Eins og að blaðra hér. Ég fór í eitt skemmtilegasta party ever á laugardaginn. Lítið kvikmyndafyrirtæki var að halda jólaboð og þrefalt þrítugsafmæli. Fullt af fólki, fullt af allskonar víni, fullt af mat og fullt af hressleika, ég var meira að segja svo hress að ég fór í singstar keppni. Þannig núna hef ég tvisvar sungið karókí, og tvisvar sungið í singstar. En já partyið var enn í gangi þegar ég ákvað að koma mér heim klukkan hálf sjö en djöfull væri ég til í að vinna á svona stað. Vinnustaðurinn eins og meðalstór íbúð, með eldhúsi og baði og svo 3 lítil fyrirtæki hvert í sínu herbergi að gera það sem þeim sýnist nánast, svo geta allir chillað saman í stofunni. Ég var að komast að því að það er eitthvað brokeback mountain dæmi í gangi á rannsóknarstofunni. Voða leynimakk, ég þarf að komast að því hver á í hlut. Búið að vera í gangi víst síðan í apríl. Það er alltaf eitthvað. Annars var ég að fatta að ég er læst úti og hef ekki hugmynd hvort eða hvenær ég kemst inn, annar sambýlingurinn er útá landi og hin hefur ekki svarað símanum í allan dag... Jæja best að fara að gera eitthvað af viti hérna!
Arna

Friday, November 13, 2009

Uppdeit

Vá hvað ég er löt í þessu bloggi. Anywho smá uppdeit, ég er flutt úr miðbænum í Fellahverfið eða svo gott sem, ég bý í stúdenta íbúð á stað sem heitir Rastila og er í austur Helsinki, dálíðið gettó. Ég man þegar ég kom hingað fyrst, ég hafði leigt flutningabíl fyrir dótið mitt frá herbalife sölumanni frá Kongó, ég borgði bara fyrir flutningin en ekki fyrir að hjálpa mér að bera dótið mitt. Fíflið sem ætlaði að flytja inn á eftir mér sagði mér að íbúðin yrði að vera tóm á fimmtudagsmorgni, sama morguninn og ég fékk nýju íbúðina afhenta, þannig ég pantaði bílinn þá og allir vinir mínir að vinna eða í skóla og ég týmdi ekki að borga manninum 25 evrur extra til að hjálpa mér niður með rúmið mitt, þannig ég bar rúmið mitt niður 5 hæðir niður í “flutningabílin” sem hékk varla saman. Restina af draslinu ferjaði ég svo í strætó í hlunknum mínum. Djöfull þarf ég að fara að taka þetta blessaða bílpróf aftur. En jæja ég kom á nýja staðin, stigagangurinn lyktaði af ælu og íbúðin var öll í drasli ég fór inn í herbergið mitt og lokaði hurðinni og hugsaði hvað í andskotanum er ég að gera hérna. En sem betur fer dofnaði sú tilfinning fljótt og núna er ég nokkuð sátt með nýja staðin. Ég bý með tveimur stelpum og það er alveg magnað hvað ég er alltaf heppin með samleigjendur 7,9,13. Þær eru frábærar, önnur er frá Hvíta Rússlandi og hin frá Rússlandi en þær hafa báðar búið í Helsinki frá 6 ára aldri. Ég hef heyrt ýmsar sögur frá þeim, bæði frá því þær voru litlar og sögur af foreldrum þeirra og ömmum og öfum, hvurslags hryllingur var í gangi og er enn í gangi í þessum löndum. Ekki skrítið að Rússar séu skrítnir. Ég þarf að skrifa þetta niður og segja fólki. Rússinn í bekknum mínum sem hvarf og kom aftur er horfin á nýjan leik, hann sendi aldrei neitt bréf. Egyptanum tókst að móðga bekkjarsystur mína svo illilega að hún mun aldrei fyrirgefa honum. Málið er það að bekkjarsystir mín á erfitt með fínhreyfingar og gang sökum cerebral palsy, hrjáir hana ekki mikið og maður tekur nánast ekki eftir því eftir að hafa umgengist hana. En cerebral palsy getur verið fylgikvilli súrefnisskorts í fæðingu. Egyptinn er einmitt að rannsaka áhrif súrefnisskorts í fæðingu á heilan, til þess meðal annars að koma í veg fyrir “þann hrylling” sem er cerebral palsy. Hann var með fyrirlestur þar sem hann var að segja okkur frá rannsóknum sínum og talaði mikið um cerebral palsy og hversu hryllilegt það er og bla bla bla, án þess að gera sér grein fyrir að bekkjarsystir hans sem sat á fremsta bekk væri með sama sjúkdóm og ekki er hún fjölfötluð og þroskaheft eins og hann vildi láta. Allavegna þetta var mjög vandræðalegt og henni leið mjög illa og eftir á spurði hann hana af hverju hún hefði verið að gefa honum auga og eitthvað í fyrirlestrinum og hún sagði honum að hann hefði basically verið að segja að hún væri “worst case scenario” og það þyrfti að koma í veg fyrir hrylling eins og hana. Hann kom af fjöllum og þóttist ekki vita að neitt væri að henni, NB maðurinn er barnalæknir, þannig það er mjög skrítið að hann taki ekki eftir því að hún sé með cerebral palsy, maður sér það strax, en hættir svo að taka eftir því. Þarna fór kurteisin alveg með Egyptan. Svo er ég búin að fatta að Finninn sem fór svo í taugarnar á mér er nákvæmlega eins og David Brent. Hann er núna trúlofaður vaxtaræktarkonu sem hann kynntist á netinu, þegar ég fór í sumarfrí hafði hann kynnst rússneskri konu á netinu, en hún fékk ekki vegabréfsáritun þannig hann fann sér bara nýja… Hann er einn sá skrítnasti sem ég hef kynnst en lætur eins og hann sé mest normal maður ever. En já margt annað sem ég gæti blaðrað um, en læt þetta nægja í bili.

P.S Ef ykkur langar að skyggnast inn í hversdagsleikan hjá Finnum þá mæli ég með að þið tékkið á þessari síðu: http://www.thelivingroomofthenation.com/ Farið í movie gallery…

Bless í bili Arna

Tuesday, September 29, 2009

"Tervetuloa taas"

Komin aftur til Helsinki, búin að vera mánuð núna og er að fara að flytja í annað sinn núna um mánaðarmótin. Ég varð að láta mér nægja stúdentaíbúð útí rassgati en metróin fer þangað þannig það reddast, hlakka til að þurfa ekki að pæla meir í flutningum í bili. Skólinn byrjaður á fullu og proffarnir sem ég er með í bekk eru búnir að vera að hamast við ritgerðarskrif í allt sumar og 3 af 5 ætla sér að útskrifast núna um jólin þrátt fyrir að fyrirhuguð útskrift sé ekki fyrr en í júlí á næsta ári. Ég og Nepalinn ætlum bara að taka því rólega þannig lagað séð og reyna að útskrifast á réttum tíma. Annars er þetta farið að minna dáldið á sápuóperu hérna úti. Rússinn sem hvarf og lét engan vita hvers vegna né hvert poppaði upp núna 7 mánuðum seinna eins og ekkert hafði í skorist og ætlar víst að senda okkur öllum bréf af hverju hann hvarf og hvað hann er búin að vera að gera, spennó... Egyptin er víst eitthvað að bralla því pabbi hans hringdi í Rússan frá Kúveit með áhyggjur af syni sínum, Rússinn vissi náttlega ekki neitt enda er hann nýkomin aftur þannig það fór af stað keðja að finna út hvort allt væri í lagi með Egyptan, það reyndist vera, en samt undarlegt, þeir eru allir stórskrítnir, ég held að ég og Nepalin séum eina fólkið með viti hérna. Það eru flestir eitthvað dubious, ég get ekki áttað mig á neinum nema Nepalanum en hann hefur gefið ýmislegt í skyn um að þar leynist mörg leyndarmál líka... Samt mjög gaman að pæla í þessu, ekkert gaman af straight fólki. Meira seinna, farin að sofa
Arna

Wednesday, March 25, 2009

Smá Update

úff langt síðan ég skrifaði síðast, það var nú ekki planið en eins og með allt sem ég "ætla að gera á morgun" geri ég aldrei. Anyway ég var að lesa læknablaðið á netinu í gær og rakst þar á grein um Margréti Guðnadóttur veirufræðing, hér kemur smá forsaga. Sumarið 2006 var ég að vinna í verkefni á sýklafræðideild Landspítalans og hafði aðstöðu niðrí kjallara í Ármúlanum þar sem veirufræðin var til húsa, það voru ekki margir að vinna þar og stundum bara ég og gamla konan eins og ég kallaði hana þar til við fórum að spjalla og ég komst að því að hún héti Margrét og væri veirufræðingur á eftirlaunum að vinna að sínu eigin rannsóknarverkefni þarna niðrí kjallara. Í kaffipásum sagði hún mér svona upp og ofan af því sem hún væri að gera og ég man að ég hugsaði VÁ! hvað ætli það séu margir svona ástríðu vísindamenn eins og hún að vinna niðrí kjöllurum um allan heim, jafnvel að vinna að stórmerkilegum uppgötvunum sem enginn veit um. Ég pældi í því að taka viðtal við hana og reyna að fá það birt í einhverju blaði en svo leið sumarið og aldrei tók ég neitt viðtal. En hérna er viðtalið loksins komið og ég þarf ekki að hafa bömmer yfir því lengur að hafa aldrei gert neitt í málinu. http://www.laeknabladid.is/2009/03/nr/3452 (Fyrir þá sem hafa áhuga) Mjög svo áhugavert... Annars hélt ég bekkjarparty um daginn, ég var dáldið stressuð yfir því öllu saman, hélt kannski að það yrði vandræðalegt eðe eitthvað en það var það svo sannarlega ekki, og ég komst að því að bekkurinn minn nær mjög vel saman og við erum ekki svo rosa ólík eins og ég hélt í fyrstu, ég verð að taka það til baka að Egyptinn sé hrokafullur monthani, hann er það ekki, langt í frá, kannski pínu snobbaður en hann bætir fyrir það með öðrum kostum. Nepalinn er eins og litli bróðir minn sem ég átti aldrei, mesta gæðablóð í heimi, samt er hann farin að sýna það að kannski er ekki eins saklaus og maður heldur, kannski á hann eftir að koma manni á óvart líka. Anne frá Eistlandi er alltaf jafn fín og hún er farin að mala gull á rannsóknarstofu hérna úti. Finninn í hópnum er dáldið skrítinn, maður veit ekki alveg með hann, en hann er samt rosa næs, svo bauð ég líka Elizavetu sem er rússnesk og ógeðslega fyndin og Martin sem segist vera evrópskur af því hann er í raun allra þjóða kvikindi. Hinn Rússinn, sem var týndur um daginn, kom náttúrulega ekki og guð veit hvað hann er að gera, því ekki er hann í skólanum og ekki er hann á rannsóknarstofunni. Partýið gekk það vel að það er búið að plana annað á föstudaginn. Svo er ég líklegast komin með rannsóknarstofu til að vinna á og gera lokaverkefni, ég ætla ekki að segja neitt meira um það fyrr en það er klappað og klárt. Meira síðar
Arna

Tuesday, February 24, 2009

Bjúrókratík

Ef það er eitthvað sem ég hata í þessum heimi þá er það bjúrókratík, tryggingar, lán, vextir, ríkisborgararéttur, dvalarleyfi... skil ekki, og vil ekki skilja. Enda fallast mér hendur þegar ég heyri fólk tala um íbúðarkaup, glætan að ég nenni að standa í því einhverntíman. Það er ekki að ástæðulausu að ég hata þetta allt saman, ég er óheppnasta manneskja sem ég þekki í sambandi við bjúrókratík, ef það er eitthvað sem getur farið úrskeyðis þá gerist það hjá mér. Ég hef 2 sinnum ekki fengið laun vegna þess að einhver launafulltrúi týndi einhverju blaði, eða gleymdi að stimpla eitthvað annað, og í bæði skiptin hefur þessi tími verið sá ALversti hugsanlegi tíminn til að fá ekki laun, í fyrra skiptið var það fyrsta sumarútbogunin eftir visa flipp í útlöndum, upphrannaðir reikningar sem þurfti að borga, og í seinna skiptið var það spurning um að komast heim í jólafrí. Ég þurfti að komast til læknis í Finnlandi og þó svo að vera búin að búa hérna í 8 mánuði, með finnska kennitölu og vinna og borga skatt þá fannst ég hvergi í tölvukerfinu þegar ég ætlaði að panta mér tíma, og systemið hérna er, ef þú ert ekki í tölvunni þá ertu ekki til. Þetta varð til þess að ég þurfti að fara og fá "permanent residence" hérna til að komast til læknis, af því fólkið hérna sem ég talaði við, sem voru þó nokkrir vissu ekkert um samnorrænu reglurnar sem ég þurfti að lesa mér til um. Sesagt 2 mánuðum fyrir áætlaða heimför (for good) þá fékk ég perminent residence, EN það var ekki nóg ég var ekki enn í helvítis tölvunni, á endanum gat ég ekki beðið lengur og þurfti að hringja í íslenska sendiráðið og þau gátu reddað þessu fyrir mig, það er nú meira helvítis málið að komast til læknis. EN þetta vesen allt saman kom sér samt vel þegar ég ákvað svo að flytja hingað aftur... Núna er ég nemi og finnska kerfið er mjög svo gott fyrir nema, allt gengur smooth fyrir sig, nema hvað að ég fékk bréf frá LÍN um daginn, þeir höfðu fengið vitneskju um að ég væri að fá það sem kallast ríkisnámsstyrkur frá finnska ríkinu, eitthvað sem allir háskólanemar hérna fá, útaf því þurfti ég að segja upp LÍN og gjöra svo vel að borga heimildina mína frá síðustu önn, því þeir ætla ekki að borga mér út lánið, týpískt! Þannig ég fór og sótti um finnskt námslán, tekur vanalega 2 vikur en í mínu tilfelli tók það mánuð, ég fékk loksins bréf frá ríkinu sem segir að ég eigi rétt á láni, næsta sem maður gerir er að maður sækir um að fá lánið hjá bankanum sínum, fer í netbankann ýtir á einn takka, easy peasy og maður fær peningana næsta dag. Ekki ég, ég er búin að bíða núna í nokkra daga, með 20 evrur í vasanum, ég þarf að fá þessa peninga ekki seinna en strax, þannig ég fer í bankan minn og spyr hvað sé í gangi, þau geta ekki svarað mér þar, ég þarf að fara í annan banka, svipað og ég færi í banka niðrí bæ og þau gætu ekki séð neitt í tölvunni sinni af því það er bilun í kerfinu (en ekki hvað!) þannig þau senda mig upp í efra breiðholt, þar bíð ég í hálftíma til þess eins að heyra að bréfið frá ríkinu sem ætti að vera komið í bankan, til sönnunar að ég eigi rétt á láni, er ekki þar. Konan segir við mig "It should be here along time ago, this never happens, it usually only takes one day" Jú þetta gerist fyrir mig, ALLTAF og ég fokkings hata það. Þannig núna veit ég ekki neitt, ég er með nafnspjald frá konunni í bankanum og ég á að hringja í hana ef ég verð óþreyjufull, dáldið erfitt þar sem inneignin mín er 0.03 evrur. Þannig ég verð bara að bíða og til að toppa allt saman þá er Lovísa í heimsókn ákkúrat núna... BESTA tímasetningin fyrir bjúrókratík fokk up. TÝPÍSKT
Arna
P.s ég er þó heppin með það að hafa haft góða íslenska þónustufulltrúa í bankanum, sem betur fer er smá vonarglæta

Friday, February 13, 2009

Föstudagurinn 13 og ótrúleg kona


Ég var að horfa á video sem Bjössi vinur minn setti á myspace og djöfull er það krípí, sérstaklega í ljósi þess að ég var að komast því að fjölskyldan sem bjó í íbúðinni minni áður en herbergisfélagar mínir fluttu inn dó í tsunami um jólin 2006, rosa sorglegt allt saman, maður, kona og 2 ung börn, kannski þau séu draugar hérna? Það er víst háaloft hérna sem ég hef aldrei séð, en hlutir sem þessi fjölskylda átti eru enn þar uppi, og enginn hefur komið til að sækja þá. Annars er rosa góður andi í þessari íbúð og ég hef aldrei verið hrædd í henni og helgina sem ég flutti inn var ég ein heima en það angraði mig ekkert, annað er hægt að segja um Óðinsgötuna... þrátt fyrir að hafa 4 herbergi útaf fyrir okkur þá sváfum við Laufey í sama herberginu allar nætur og enginn gat verið einn heima þar. Svo komst ég að því í skólanum í dag að einn af samnemendum mínum er týndur, það veit enginn hvar hann er, við í bekknum höfum ekki séð hann síðan í myndatökunni sem var í byrjun annar og við héldum öll að hann væri svona upptekinn með rannsóknarhópnum sínum að hann hefði ekki tíma til að mæta í skólan, svo frétti ég það í dag að rannsóknarhópurinn veit ekkert hvar hann er, hann hefur ekki sést þar í lengri tíma og hann svarar ekki símtölum né e-meilum, mjög undarlegt þar sem prófessorinn sem er yfir rannsóknarhópnum barðist fyrir því að fá hann inn í prógrammið eindregið til þess að fá hann á rannsóknarstofuna sína, svo bara beilar hann og enginn veit neitt. Ég vissi að það væri eitthvað dubious við þennan gæja, þetta er 22 rússneski strákurinn með teinana sem þykist reykja. Ég er nú þegar komin með allskonar kenningar en ég ætla ekki að fara nánar út í þær hérna, hann hlýtur að koma í leitirnar. Annars er ég búin að vera í kúrs sem heitir developmental neuroscience og heyrði þar af ANSI merkilegri konu. Hún heitir Rita-Levi Montalcini og er 100 ára á árinu en er enn að vinna að vísindum og kennarinn okkar hitti hana á ráðstefnu í Róm um síðustu helgi þar sem hún var að kynna veggspjald með niðurstöðum sínum og hún er enn að leiðbeina nemum með rannsóknarverkefni. Þessi merka kona fékk nóbelsverðlaun í læknavísindum árið 1986 fyrir rannsóknir sínar sem hún framkvæmdi meðal annars í svefnherberginu sínu og eldhúsi þar sem hún er gyðingur og kona og mátti því ekki stunda læknavísindi á Ítalíu í seinni heimstyrjöldinni. Auk þess að vera vísindamaður þá situr hún á þingi og í fyrra var hún sá þingmaður sem var minnst frá þingstörfum, 99 ára gömul... Ótrúlegt.
Bekkurinn hennar þegar hún lærði læknisfræðinni var heldur ekkert slor, auk hennar hafa 2 aðrir hlotið nóbelinn 3 nóbelsverðlaunahafar í sama bekknum, það er svakalegt. Af hverju hefur maður aldrei heyrt á hana minnst fyrr??? Ég ætla að reyna að finna ævisöguna ASAP
Ég mæli með þessari síðu ef þið viljið fræðast nánar um þessa merkilegu konu.
http://beckerexhibits.wustl.edu/mowihsp/bios/levi_montalcini.htm
(P.s myndin efst er af henni, svöl kona!)

Góða helgi allir saman
Arna

Monday, February 9, 2009

Byttur

Ég fór í skólan í dag og eins og svo oft áður þá var metróið fullt af unglingum sem voru hrækjandi útum allt og með endalaus læti, af hverju eru unglingar svona athyglissjúkir? Þeir reyna eins og þeir geta að vera áberandi, klæða sig asnalega, tala hátt og mikið og oftast um eitthvað sem þeir halda að sé rosa sjokkerandi... Svo ef maður horfir á þá oftast af pirringi og undrun (yfir því hvað þeir eru dilusional) þá gefa þeir manni svona "hva erta glápa" look, er það ekki það sem þeir vilja að sem flestir glápi á þá? Haldiði þá kjafti bara einu sinni! Anyway unglingar eru ekki þeir einu sem hrækja, ég sé róna oft hrækja og það er eitt það ógeðslegasta sem ég sé, druslulegan rónakall spýta útúr sér horhráka, ojjjj ég sá þannig í dag, nema hvað hann hrækti og ældi svo smá líka, allur skjálfandi og grár og þegar ég sá framan í hann sá ég að hann var tannlaus líka, svo engdist hann um hrækjandi/ælandi eða hvað það var sem hann var að gera, sorglegt. Þá rann það upp fyrir mér að í hvert einasta sinn sem ég fer í metró, strætó, sporvagn þá finn ég alltaf svona þynnku spritt lykt, það bregst ekki, skiptir ekki hvaða dagur það er eða klukkan hvað. Oftar en ekki rek ég svo lyktina til einhverrar konu í pels eða eitthvað, laumufyllibyttu, ég held að það sé fáránlega mikið af þeim hérna. Ég var hætt að taka eftir þessu en svo þegar ég sá mannin í dag þá rann þetta upp fyrir mér. Rosalegt hvað fólk getur verið illa farið af þessari drykkju, ég verð alltaf jafn sjokkeruð þegar ég sé manneskju sem er örkumluð fyrir lífstíð af ofdrykkju... Virðist ekki eldast af mér

Friday, February 6, 2009

06.02.09


Mikil rólegheit í gangi hér. Ég smellti þessum myndum af útum gluggan hjá mér rétt í þessu, það er eitthvað svo mikil ró í loftinu að ég varð bara að gera það... Anyway ég er búin að vera að glugga í nýja VICE í dag, þar er viðtal við japanska mannætu og sá maður er einn sá geðveikasti sem ég hef vitað um, jesús minn hvað maðurinn er snarklikkaður OG hann er ekki í meðferð eða fangelsi, þrátt fyrir að hafa drepið eina konu og étið megnið af henni, nei hann gengur um metróin í Japan og starir á konur sem hann vill éta, já svo drekkur hann líka piss og slef, og vildi helst af öllu vera drekkt í konuslefi... Þið verðið bara að lesa þetta til að fá alla söguna. Af hverju étur hann bara ekki sjálfan sig og gerir öllum greiða?
Arna

P.s hann heitir Issei Sagawa ef þið viljið gúggla

Monday, January 26, 2009

Meritullinkatu


Ég elska þennan stað sem ég bý á. Ég er strax farin að kvíða því að þurfa að flytja út í júní. Fyndið hvernig hlutirnir gerast, ég var búin að vera að leita af íbúð í 3 mánuði, búin að skoða margar og ég man að íbúðin sem ég skoðaði áður en ég skoðaði þessa var eins herbergja íbúð sem indverskur strákur var að leigja af einhverjum læknanema. Ég sá auglýsingu og hringdi, mér brá þegar karlmaður svaraði í síman enda hélt ég að nafnið í auglýsingunni væri kvenmannsnafn, en allavegana ég vildi ekki vera dónleg og bakka með allt saman þannig ég endaði á því að fara og skoða íbúðina eða herbergið réttara sagt. Rosa næs strákur og allt það en no way að ég ætli að fara að búa í stofunni hjá einhverjum gaur sem ég þekki ekki neitt, ég var strax farin að ímynda mér allskyns vesen og vandræði. EN allavegana þegar ég kom hingað og hitti stelpurnar sem ég leigi með þá vissi ég að ég myndi flytja hingað, fyndið þegar maður finnur svona á sér, ég skoðaði aðra íbúð deginum á eftir og eins og ég vissi að ég myndi fá þessa þá vissi ég líka að ég myndi ekki fá þá íbúð. Og það stóðst. Ég gæti ekki verið heppnari, þarf ekki að fara útúr íbúðinni til að þvo þvott eða fara í sauna, og það er stór plús. Annars er skólinn byrjaður og ég hitti bekkinn minn um daginn, það var einhver myndataka, og ég sé eftir því núna að hafa talað illa um tvo af strákunum, þeir eru allavegana allir að koma til og eru farnir að spjalla, kannski hafa þeir bara verið stressaðir eða eitthvað. Ég ætla að reyna að hafa partý fljótlega, reyna að kynnast þeim betur. Annars eru 3 próf framundan og þá getur maður loksins sagt bless við 2008... Held að það sé ágætt bara.
P.S ég er með svefnsófa, þannig ef einhverjum vantar gistingu í Helsinki þá er það velkomið
Sjáumst Arna

Tuesday, January 13, 2009

Að heiman um jólin 2008





Heima um jólin 2008





Minningar

Þá er ég komin aftur til Helsinki, einhverra hluta vegna þá er ég miklu rólegri hérna heldur en heima. Það var samt frábært að koma heim í frí og hitta alla frábæru vini mína og fjölskyldu, en daglegt líf hérna úti á betur við mig, allavegana eins og er. Fyndið ég fór og hitti vin minn áðan og hann sagði mér að hann hafi keypt sér Hank Williams plötu um daginn og hann þyrfti endilega að fara að kaupa sér fleiri plötur með honum. Ég man þegar ég kynntist þessum strák þá fýlaði hann ekki kántrý, en hefur frelsast til þess svo um munar uppá síðkastið. Ég man að ég var að spila fyrir hann Willie og Waylon og eitthvað og hann meikaði ekki neitt, en ég held að maður sé virkilega farin að fýla kántrý þegar maður fýlar Hank Williams. Ég man það eins og það gerðist í gær þegar ég fór virkilega að fýla kántrý. Elvar vinur okkar hafði komið í heimsókn eftir Kolaportsferð með Dolly Parton plötuna Heartbreak express, hann rauk inní chill out roomið og spilaði "Single women" fyrir mig og Laufey og fannst geðveikt fyndið hvað textinn passaði vel við okkur, stuttu eftir það þá kom heim á Óðinsgötuna eftir helgarfrí í Grafarholtinu og þá var Eva að spila "Do I ever cross your mind" af sömu plötu og hún var dansandi útum allt hús. Eftir það var Heartbreak express með Dolly spiluð í tætlur á Óðins og ég og Laufey gátum ekki sofnað nema að hlusta á Stardust með Willie Nelson. Margt og mikið hefur gerst síðan þá en alltaf hefur maður kántrý til að gráta í bjórinn sinn yfir.
Arna