Wednesday, March 25, 2009

Smá Update

úff langt síðan ég skrifaði síðast, það var nú ekki planið en eins og með allt sem ég "ætla að gera á morgun" geri ég aldrei. Anyway ég var að lesa læknablaðið á netinu í gær og rakst þar á grein um Margréti Guðnadóttur veirufræðing, hér kemur smá forsaga. Sumarið 2006 var ég að vinna í verkefni á sýklafræðideild Landspítalans og hafði aðstöðu niðrí kjallara í Ármúlanum þar sem veirufræðin var til húsa, það voru ekki margir að vinna þar og stundum bara ég og gamla konan eins og ég kallaði hana þar til við fórum að spjalla og ég komst að því að hún héti Margrét og væri veirufræðingur á eftirlaunum að vinna að sínu eigin rannsóknarverkefni þarna niðrí kjallara. Í kaffipásum sagði hún mér svona upp og ofan af því sem hún væri að gera og ég man að ég hugsaði VÁ! hvað ætli það séu margir svona ástríðu vísindamenn eins og hún að vinna niðrí kjöllurum um allan heim, jafnvel að vinna að stórmerkilegum uppgötvunum sem enginn veit um. Ég pældi í því að taka viðtal við hana og reyna að fá það birt í einhverju blaði en svo leið sumarið og aldrei tók ég neitt viðtal. En hérna er viðtalið loksins komið og ég þarf ekki að hafa bömmer yfir því lengur að hafa aldrei gert neitt í málinu. http://www.laeknabladid.is/2009/03/nr/3452 (Fyrir þá sem hafa áhuga) Mjög svo áhugavert... Annars hélt ég bekkjarparty um daginn, ég var dáldið stressuð yfir því öllu saman, hélt kannski að það yrði vandræðalegt eðe eitthvað en það var það svo sannarlega ekki, og ég komst að því að bekkurinn minn nær mjög vel saman og við erum ekki svo rosa ólík eins og ég hélt í fyrstu, ég verð að taka það til baka að Egyptinn sé hrokafullur monthani, hann er það ekki, langt í frá, kannski pínu snobbaður en hann bætir fyrir það með öðrum kostum. Nepalinn er eins og litli bróðir minn sem ég átti aldrei, mesta gæðablóð í heimi, samt er hann farin að sýna það að kannski er ekki eins saklaus og maður heldur, kannski á hann eftir að koma manni á óvart líka. Anne frá Eistlandi er alltaf jafn fín og hún er farin að mala gull á rannsóknarstofu hérna úti. Finninn í hópnum er dáldið skrítinn, maður veit ekki alveg með hann, en hann er samt rosa næs, svo bauð ég líka Elizavetu sem er rússnesk og ógeðslega fyndin og Martin sem segist vera evrópskur af því hann er í raun allra þjóða kvikindi. Hinn Rússinn, sem var týndur um daginn, kom náttúrulega ekki og guð veit hvað hann er að gera, því ekki er hann í skólanum og ekki er hann á rannsóknarstofunni. Partýið gekk það vel að það er búið að plana annað á föstudaginn. Svo er ég líklegast komin með rannsóknarstofu til að vinna á og gera lokaverkefni, ég ætla ekki að segja neitt meira um það fyrr en það er klappað og klárt. Meira síðar
Arna